Mars færist fram í maí 2021. Stærsta hönnunarhátíð landsins HönnunarMars fer fram dagana 19-23. maí 2021.
Stjórn hátíðarinnar tók ákvörðun þess efnis, bæði í ljósi yfirstandandi heimsfaraldurs og óvissunni sem því fylgir og sömuleiðis gríðarlega góðum viðtökum bæði þátttakenda og gesta við HönnunarMars í júní sem fór fram dagana 24.-28. júní.
HönnunarMars, sem eins og nafnið gefur til kynna, hefur frá upphafi 2009 farið fram í marsmánuði en hið óvenjulega ár 2020 færði hátíðina fram í júní. Um 80 sýningar og 100 viðburðir breiddu úr sér á höfuðborgarsvæðinu þar sem gestum gafst tækifæri að sækja sér innblástur og kynnast grósku íslenska hönnunarsamfélagsins.
HönnunarMars er ein af sex borgarhátíðum Reykjavíkur en þar leiðir framsækin hönnun og nýjungar saman sýnendur og gesti. Hátíðin boðar nýjungar og óvænta nálgun og er lífleg höfn hugmynda, ólíkra sjónarmiða og þekkingar, hreyfiafl sem auðgar og bætir samfélagið.
HönnunarMars er boðberi bjartsýni og skapandi krafta í samfélaginu. Þar gefst tækifæri til að beina sjónum að hönnun sem drifkraft til nýsköpunar og sýna hversu mikilvægu hlutverki þessar greinar gegna í samfélaginu.