24.–28.04.2024

DesignMarch

HönnunarMars

  • Heim
  • Um HönnunarMars
  • Upplýsingar
  • English

MAGNEA / ull & confetti

Fatahönnun

MAGNEA kynnir nýja línu með upplifunarviðburði og tískuinnsetningu á Exeter Hotel en fatamerkið hefur undanfarin ár vakið verðskuldaða athygli fyrir frumlega og listræna nálgun sína á prjón og íslenska ull.

MAGNEA er íslenskt fatamerki stofnað af Magneu Einarsdóttur sem er útskrifaður fatahönnuður með áherslu á prjón frá Central St Martins í London. Í hönnun sinni leggur Magnea áherslu á nýstárleg efni, prjón og fleira. Fatalínur hönnuðarins eru byggðar á hugmyndafræði hennar um ferska og sjálfbæra nálgun á prjón og íslenska ull. Með áherslu á tilraunir og handverk, litasamsetningar og smáatriði skapar hönnuðurinn og þróar ný efni fyrir hverja línu og útfærir vandlega í einföld form og nútímalega hönnun fyrir konur á öllum aldri.

Fatamerkið MAGNEA býður upp á fjölbreytt úrval prjónavöru úr náttúrulegum hráefnum. Yfirhafnir úr íslenskri ull eru hluti vöruúrvalsins og kynntar sérstaklega undir heitinu made in rvk sem vekur um leið athygli á uppruna vörunnar sem framleidd er í Reykjavík. Með verkefninu vill hönnuður stuðla að auknum rekjanleika og gegnsæi en þau atriði eru talin aflgjafi aukinnar sjálfbærni í tískuiðnaði. Það sem er einstakt við virðiskeðju verkefnisins er að allt ferli vörunnar gerist innan höfuðborgarsvæðisins. Sérstaða vörunnar er sú að hugvitið, hráefnið og framleiðslan er öll unnin á sama stað sem gefur gæðastimpil og minnkar kolefnisspor. Fágað litaval og listræn framsetning undirstrika nýstárlega möguleika íslensku ullarinnar sem spennandi efnis í fatnað fyrir nútímafólk. Í framleiðsluferlinu er lögð áhersla á atriði sem stuðla að aukinni sjálfbærni í tískuiðnaði – eins og rekjanleika, gagnsæi og staðbundna framleiðslu.

Magnea er einn eigenda íslensku hönnunarverslunarinnar Kiosk við Grandagarð 35 þar sem línan er fáanleg til sölu.

Sýningastaður

Exeter Hotel, Tryggvagata 14, 101 Reykjavík
Skoða á korti


Viðburðurinn á Facebook

Þátttakendur
  • MAGNEA
HönnunarMars er skipulagður af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs

+354 771 2200
www.honnunarmidstod.is
info@honnunarmidstod.is

Skráðu þig í skúbbklúbb HönnunarMars