Flétta og Ýrúrarí munu opna pítsastað yfir HönnunarMars þar sem boðið verður upp á þæfðar pítsur úr ullarafgöngum frá íslenskum ullariðnaði. Hægt verður að kaupa ullarpítsur af matseðli sem verða svo þæfðar meðan beðið er.
Pítsustund með Fléttu og Ýrúrarí er fimm daga gjörningur þar sem hönnuðirnir þæfa ullarpítsur úr ullarafgöngum frá íslenskum ullariðnaði. Sviðsmynd viðburðarins byggist í kringum nálaþæfingarvél sem sett er í hlutverk pítsuofns en hönnuðurnir bregða sér í hlutverk bakara og afgreiðslufólks. Hægt verður að panta ullarpítsur af matseðli eða velja úr ýmsum áleggstegundum. Nánari upplýsingar um gjörninginn má finna á Facebook viðburði sýningarinnar.
Ýrúrarí er þekkt fyrir hressandi nálgun á endurvinnslu og viðgerðum á klæðnaði. Hún hefur starfað sem textílhönnuður í um tíu ár og hefur tekið þátt í fjölbreyttum sýningum og viðburðum víða um heim.
Flétta er hönnunarfyrirtæki þar sem unnið er með umframefni frá öðrum iðnaði til að búa til nýjar vörur. Flétta er meðal annars þekkt fyrir vörulínu úr gömlum verðlaunagripum og púða úr loftpúðum úr ónýtum bílum.