Svart og Minuit tengjast hvort öðru í gegnum sameiginlega hrifningu þeirra af hafinu og öllum þeim leyndardómum sem finna má í vatninu.
Fyrir Hönnunar Mars 2022 skapa þau fatnað, fylgihluti og listaverk úr ónýtum fiskilínum, netum og reipum. Verkefnið er yfirlýsing gegn mengun hafsins en sýnir einnig einstaka leið til að endurnýta veiðirusl og aðra skaðlega hluti. Fiskinet eru vandlega hönnuð til að veiða mismunandi tengundir fiska en Svart og Minuit vilja nýta netin og breyta notkun þeirra til að grípa tilfinningar og tjáningu manna.
„Ég hef farið í gegnum margar innblásturslindir undanfarin ár en nú þrái ég að sameinast hafinu á ný. Hafið er þar sem ég finn einingu við jörðina, við náttúruna og við tilveruna.“
-Marko
Svart og Minuit hafa miklar áhyggjur af núverandi ástandi hafsins. Þetta verkefni dregur sérstaklega fram málefni drauganeta – veiðinet sem hafa týnst eða verið kastað í sjóinn og skilin eftir af sjómönnum. Þessi drauganet skolast upp á land eða reka í hafinu þar sem fiskar, hvalir, sjófulgar og önnur sjávardýr geta flækst í netunum.
Sjómenn kasta gjarnan slitnum netum fyrir borð því það er auðveldasta leiðin til að losna við þau. Það tekur allt að 600 ár fyrir fiskinet og veiðilínur að brotna niður í náttúrunni. Skaðinn sem þau geta valdið er því gríðarlegur og langvarandi, líklega mun meiri en fólk gerir sér grein fyrir.
Hönnuðir þurfa að nota sköpunargáfu sína til þess að vernda náttúruna og gera allt sem þeir geta til að lágmarka umhverfisáhrif sín. Ísland er eitt hreinasta land í heimi en við þurfum að leggja okkur öll fram ef við viljum halda því þannig í framtíðinni.
Ætlunin með þessu verkefni er að sýna nýjar nálganir og leiðir til að endurnýta óhefðbundið efni, sem verður einnig grunnur og innblástur að hönnun okkar í framtiðinni.
Um okkur:
Marko Svart er sænsk/finnskur fjöllistamaður og hönnuður sem hefur verðið búsettur í Reykjavík frá árinu 2017. Hann er stofnandi og hönnuður tískumerkisins Svartbysvart sem opnaði sína fyrstu verslun í Reykjavík árið 2019. Hönnun Markos er oft innblásin af hafinu og hann hefur einnig einstaka og sjálfbæra leið til að nýta sér „tilbúna hönnun náttúrunnar“.
Minuit er frönsk listakona með náin tengsl við Ísland.
Á svipaðan hátt og Marko takmarkar Minuit verk sín ekki við ákveðið listform. Hún notar hönnun, skúlptúr, umhverfislist, vatnsliti, ljósmyndun, skrift, teikningu o.fl. til að skapa lifandi myndmál sem oftar en ekki tengist sjónum og náttúrunni.