As We Grow kynnir nýjustu barnafatalínu merkisins með tískusýningu í bakgarði nýrrar verslunar við Klapparstíg 29.
Í tilefni Hönnunarmars mun As We Grow einnig kynna nýtt verkefni og viðbót, Sporastofuna, þar sem hverjum og einum gefst tækifæri á að gera sína As We Grow flík enn persónulegri með því að bæta við hana einstökum útsaumi.
Vor og sumarlína AS WE GROW er innblásin af bernskuminningum frá sumrum í íslenskum sjávarþorpum. Í tilefni af opnun nýrrar verslunar og vinnustofu AS WE GROW á Klapparstíg 29 og komu nýrrar fatalínu er gestum HönnunarMars boðið á tískusýningu þar sem þeim mun gefast kostur á að ferðast aftur á vit eigin minninga um bjarta íslenska vordaga.
Hugmyndin að íslenska hönnunarfyrirtækinu AS WE GROW kviknaði út frá peysu sem reykvísk móðir í fjölskyldunni prjónaði á son sinn og var notuð í áraraðir, á milli kynslóða og fjölskyldna og er enn í dag í notkun.
Innblástur er sóttur í arfleifð, ættartré, vini og handverk. Virðing er borin fyrir umhverfi, venslum og efnahag, í anda „Slow Fashion“ stefnunnar.
Með skírskotun í nýtingu fyrri kynslóða, er sjónum beint að þeirri verðmætaaukningu sem til verður þegar fatnaður gengur manna á milli. Nýtni og notagildi eru þar dregin fram, virðing fyrir framleiðslu, framleiðsluferli og jörð – en jafnframt og ekki síður tilfinningalegt gildi sem sagan er fær um að bæta við þá gripi sem eignast langt líf. Sú saga er okkur að skapi og er það ósk okkar að flíkurnar fari í áhugavert ferðalag og verði þannig partur af sögunni.
Sýningastaður
As we grow, Klapparstígur 29, 101 Reykjavík
Skoða á korti