66°Norður og Fischersund kynna ilmvatnið Útilykt á Hönnunarmars
66°Norður og ilmhúsið Fischersund hafa sameinað krafta sína og skapað ilmheim innblásinn af íslenskri útilykt. Þetta áhugaverða samstarf verður opinberað á Hönnunarmars, 19.-23. maí.
Um er að ræða þverfaglegt hönnunarverkefni þar sem markmiðið var að búa til ilm fyrir 66°Norður og ákveðinn upplifunarheim í kringum ilminn, en hluti af verkefninu er einnig tónverk sem unnið er af Jónsa í Sigurrós, Sindra og Kjartani Holm. Jónsi í Sigurrós er einn af þeim sem stendur að fyrirtækinu Fischersund sem sérhæfir sig í upplifun og skynjun en hann og systur hans, Lilja, Ingibjörg og Sigurrós, stofnuðu Fischersund saman árið 2017 og því óhætt að tala um alvöru fjölskyldufyrirtæki.
Ilmvatnið er handgert hér á Ísland og unnið úr íslenskum lækningajurtum og jurtaolíum sem gerir þetta að hreinni ilmvöru sem er laus við öll óæskileg aukaefni. Eins og fyrr segir er innblástur sóttur í íslenska náttúru og íslenska útilykt en vindurinn, sjórinn, snjórinn, nýslegið gras og að vera úti lék stærstan þátt í innblæstrinum þegar hönnunarteymi 66°Norður og Fischersund unnu að því að þróa lyktina. 66°Norður og Fischersund leggja bæði mikla áherslu á sterka sögufrásögn í sínu starfi og í þessu samstarfi er í raun um að ræða sögu af Íslandi og íslenskri náttúru í gegnum lykt og tónlist. Hugmyndin var að fanga þessa fersku lykt sem fólk finnur þegar það kemur inn eftir góða útiveru, lykt sem er erfitt að skilgreina nákvæmlega en allir kannast svo vel við.
Útkoman úr samstarfinu verður innleidd að fullu í haust í verslunum 66°Norður en á Hönnunarmars munu gestir hátíðarinnar gefast þess kost að heimsækja verslun 66°Norður á Laugavegi og upplifa verkefnið ásamt því að takmarkað upplag af ilminum, sem kallast hreinlega Útilykt, verður til sölu. Í haust er áætlað að fleiri geti keypt sér lyktina ásamt því að tónistin verður gefin út.