Fatamerkið MAGNEA frumsýnir nýja fatalínu í versluninni Kiosk Granda, Grandagarði 35. Línan byggir á hugmyndafræði merkisins um að gera nýja og ferska hluti í prjóni.
MAGNEA er íslenskt fatamerki sem leggur áherslu á hönnun á prjónafatnaði og nýjungar úr íslenskri ull. Hönnuður er Magnea Einarsdóttir sem hefur það að markmiði að nota hefðbundnar aðferðir og hráefni á nýjan hátt.
Áhersla á tilraunir með efni og aðferðir, auga fyrir smáatriðum og frágangi ásamt ástríðu fyrir sjálfbærni og umhverfisvænni tísku hefur leitt hönnuðinn yfir í að vinna náið með íslenskum framleiðendum og kanna möguleika með íslenska ull. Einnig vinnur hún með framleiðendum í Evrópu.
Línan sem verður kynnt samanstendur af blöndu af þessu tvennu en grunnurinn liggur í þróun hönnuðarins á eigin efnum. Prjónið og efnin eru vandlega útfærð í látlaus snið og nútímalega hönnun fyrir konur á öllum aldri.