Sjálfseignarstofnunin Hannesarholt og keramik- og textílbrautir Myndlistaskólans í Reykjavík sýna afrakstur öflugs samstarfs sem unnið hefur verið yfir vorönn 2021.
Nemendur tveggja brauta skólans hafa hannað og þróað vörur og listaverk sem eru innblásin af sögu og starfsemi hússins. Sýningin tekur yfir allt húsið og sýnir verk nemenda ásamt matarnýjungum frá Hannesarholti.
Nemendur keramikbrautar hafa hannað og framleitt diskasett fyrir veitingastað Hannesarholts sem er sérhannað fyrir rétti af matseðli hússins. Textílbraut skólans sýnir safn af mynstrum sem öll eru innblásin af Hannesarholti og sýna fjölbreytta nálgun á mynsturgerð og notkun þeirra. Verk nemanda frá báðum brautum verða nýtt í starfsemi hússins og miðlað á fjölbreyttan hátt á þessari samsýningu. Hægt verður að upplifa verk nemenda allt frá hugmynd, yfir í ferli og sem fullunna vöru í notkun.
Beint streymi verður úr eldhúsi Hannesarholts, þar sem kokkar hússins framleiða matvæli úr íslensku hráefni sem flokkast sem rusl en Hannesarholt leitast ætíð eftir því að lágmarka framleiðslu á rusli og lágmarka kolefnisspor matardisksins.