Útskriftarsýning Listaháskóla Íslands 2021, „Af ásettu ráði“ fer fram í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi við Tryggvagötu dagana 15. -24. maí. Þar sýna útskriftarnemendur á BA stigi í arkitektúr, fatahönnun, grafískri hönnun, vöruhönnun og myndlist ásamt útskriftarnemendum í MA hönnun.
Það að finna hugmyndum sínum farveg er óvissuferðalag sem krefst hugrekkis og áræðni. Leiðin er sjaldnast vel stikuð og áfangastaðurinn er á sífelldri hreyfingu, ef hann er yfirhöfuð fyrir hendi. Þetta gerir ferðina þó þeim mun æsilegri. Mörk eru þanin og nýjar slóðir kannaðar. Forvitni, útsjónarsemi og einskær ásetningur nemenda hafa nú leitt þá að þessum mikilvægu tímamótum, eftir nám sem hefur veitt þeim fjölbreytt tækifæri til að kanna hugmyndir og þróa færni.
Útskriftarsýning Listaháskólans 2021 er uppskeruhátíð ríflega sjötíu nemenda úr myndlistar-, arkitektúr- og hönnunardeildum á BA stigi og úr MA námi í hönnun. Efnistök nemenda eru margvísleg og nálgun hvers og eins einstök. Hér má finna ilmandi bókverk, landsliðsbúninga fyrir nýjar íþróttir, rottu í leit að osti lífsins, hljóðspegil og fullkomið augnablik. Eins er fjallað um skynjun í geimnum, leitina að ástinni, myndbirtingu ofhugsunar og leiðir til að endurnýta gerviefni. Önnur verk leita að nýjum litheimum, gefa okkur innsýn inn í sögur sjómanna og velta upp hugmyndum um nýja byggð í Viðey.
Hér eru hvorki einfaldar lausnir né órekjanleg sannindi borin á borð. Verkin birta okkur aftur á móti ferska sýn á það sem við töldum okkur þekkja – eða opna okkur nýjar víddir. Af ásettu ráði hvetjum við gesti til að draga inn andann, opna hugann og njóta uppskerunnar.
Sýningarstjórar sýningarinnar eru Birgir Örn Jónsson, Signý Þórhallsdóttir og Una Björg Magnúsdóttir