Gagnvirk sýning á Wave frá Genki Instruments, handhöfum Hönnunarverðlauna Íslands 2019. Sýningin spannar þróunarferli Wave og fá gestir að upplifa hvernig tónlistarfólk notar hringinn í sköpun sinni og flutningi um allan heim í dag ásamt því að öðlast innsýn í framtíðarmöguleika hans.
Gagnvirk sýning á Wave by Genki Instruments. Kynnist þróunarferli Wave, upplifið hvernig hringurinn er notaður í dag og öðlist innsýn í framtíðarmöguleika hans.
**Genki Instruments**
Genki Instruments er hátæknifyrirtæki sem vinnur að því að gera tækni náttúrulegri. Við ættum ekki að þurfa að breyta hegðun okkar til aðlagast tækjunum í lífi okkar – þvert á móti verðum við að finna leið til þess að þau skilji litbrigði mannlegrar tjáningar. Í sífellt tengdari heimi liggur á að finna farsæla lausn og því er Genki Instruments að endurhanna samtal okkar við tækni og gera það náttúrulegra.
Að baki Genki Instruments er þverfaglegt teymi sem hefur frá upphafi lagt jafna áherslu á hönnun og verkfræði. Teymið hefur þróað heildstæða tæknilausn og byggt upp þekkingu sem nær frá útlits- og upplifunarhönnun til algríma og vélbúnaðarþróunar.
**Wave by Genki Instruments**
Fyrsta vara Genki Instruments er hringurinn Wave, en hann gerir tónlistarfólki kleift að móta hljóð og stýra með hreyfingum handarinnar. Ferlið hefur verið langt og strangt en frá upphafi hefur rík áhersla verið lögð á að hanna með notendur í huga og frá fyrsta degi hefur íslenskt tónlistarfólk haft mikil áhrif á þróun hringsins.
Wave kom á markað árið 2019 og náðist sá áfangi ekki síst fyrir tilstuðlan dyggra stuðningsaðila sem eru Tækniþróunarsjóður, Hönnunarsjóður, Startup Reykjavík og fjárfestar sem komið hafa að fyrirtækinu.
Sýningin spannar þróunarferli Wave og fá gestir að upplifa hvernig tónlistarfólk notar hringinn í sköpun sinni og flutningi um allan heim í dag ásamt því að öðlast innsýn í framtíðarmöguleika hans.
Kynnist ferlinu frá vírum á handarbaki, ótal skissum og þrívíddarprentum yfir í vöru í hæsta gæðaflokki sem nú er fjöldaframleidd og notuð af tónlistarfólki um allan heim.
**Framtíðin**
Nú þegar hefur grunntækni Wave og hönnun verið nýtt á sviðum alls ótengdum tónlist, t.d. í sýndarveruleika, inn á snjallheimilinu og til að aðstoða hreyfihamlaða. Framtíðin er full af möguleikum og býður Genki Instruments gestum að koma, prófa og móta framtíðina með sér.