25002500

Af hverju ætti ég að taka þátt í HönnunarMars?

Vettvangur

HönnunarMars er vettvangur fyrir hönnuði og arkitekta til að frumsýna ný verk og sjá og upplifa hvað aðrir eru að gera innan geirans. Hann er tímasetning til að staldra við og draga fram í dagsljósið margbreytileika íslenskrar hönnunar og arkitektúrs, sýna, rýna og eiga samtal um hvað hefur verið gert og hvert skal haldið.

HönnunarMars er stærsta kynningarafl íslenskrar hönnunar og arkitektúrs á Íslandi og erlendis. Dagskrá hátíðarinnar byggst á víðtækri þátttöku íslenskra hönnuða, sem standa fyrir sýningum, innsetningum og viðburðum, einir sins liðs eða í hópum. Á hátíðinni sameinast allar greinar hönnunar; fatahönnun, arkitektúr, húsgagna- og innanhússhönnun, landslagsarkitektúr, grafísk hönnun, keramík, textílhönnun, skartgripahönnun og vöruhönnun.

Sýnileiki

Á HönnunarMars fær áhugafólk um hönnun, kaupendur, sýningarstjórar, fjölmiðlafólk, áhrifafólk, erlendir gestir og hönnuðir tækifæri til að upplifa sýningar/viðburði á hátíðinni en á hverju ári heimsækja um 30.000 Íslendingar HönnunarMars ásamt hundruð erlendra gesta. Allur þessi fjöldi og meira til skoðar einnig vefsíðu og samfélagsmiðla HönnunarMars.

Umfjöllun

Á hverju ári birtast milli 2-300 greinar í íslenskum fjölmiðlum sem tengjast HönnunarMars og verkefnum sem birtast á honum. Auk þess birtast yfir 100 fréttir í erlendum miðlum. Hátíðin býður á þriðja tug erlendra blaðamanna til landsins, auk þess sem blaðamenn, ljósmyndarar, bloggarar og aðrir fjölmiðlamenn víða að úr heiminum sækja hátíðina á eigin vegum.

Hátíðin og viðburðir innan hennar eru kynntir fyrir innlendum og erlendum fjölmiðlum ásamt því sem framúrskarandi sýningar/viðburðir fá sérstaka umfjöllun á vegum hátíðarinnar í dagskrárriti HönnunarMars, sérblaði Morgunblaðsins um hönnun og sérblaði Grapevine. Viðburðum er einnig miðlað með markvissum hætti á samfélagsmiðlum s.s. Facebook og Instagram og fá þátttakendur tækifæri til að nýta sér þann samtakamátt á eigin miðlum. Að auki er sent út fréttabréf um hátíðina í aðdraganda og á meðan á hátíð stendur.

Tengslanet

HönnunarMars er einstakur vettvangur hönnuða og arkitekta til að efla tengslanet sitt innan samfélags hönnunar og arkitektúrs á Íslandi og ekki síður til að byggja upp alþjóðlegt tengslanet sem leitt getur til samstarfs, viðskipta, verkefna og jafnvel vináttu.

Viðskiptatækifæri

HönnunarMars er vettvangur viðskipta um hönnun. Á hátíðinni mætast ólíkir hópar til að skapa ný verkefni og tækifæri. Kaupendur og framleiðslufyrirtæki sækja HönnunarMars heim ár hvert ásamt innlendum og erlendum sýningarstjórum, fulltrúum háskóla og stjórnendum frá erlendum hönnunarvikum. Hátíðin er orðin mikilvægt hreyfiafl í íslensku samfélagi og eru tækifæri til viðskipta á hátíðinni fjölmörg.

Uppskera

HönnunarMars er uppskeruhátíð hönnuða og því tilefni til að fagna. Þar mætast arkitektar og hönnuðir úr öllum greinum, framleiðendur, kaupendur, fjölmiðlafólk, almenningur og hið opinbera í fríríki nýjunga og óvæntrar nálgunar.

HönnunarMars í tölum

  • 400+ hönnuðir taka þátt
  • 100 viðburðir á dagskrá
  • 30.000 gestir innlendir og erlendir